; www.fullfrisk.com
Home Fréttir Kennaranámskeið Fullfrísk
Kennaranámskeið Fullfrísk
Í janúar verður Fullfrisk ehf. með 3 helga námskeið fyrir þolfimikennara, einkaþjálfara og aðra sem  sem sinna líkamsrækt hjá barnshafandi konum og nýorðnum mæðrum.  

Markmið námskeiðsins er að gera þessu fólki kleyft að þjálfa barnshafandi konur og nýorðnar mæður á öruggan og markvissan hátt, hvort sem er í hvers kyns hóptímum eða einkaþjálfun.  

Námskeiðið skiptist í bóklegan og verklegan hluta.


Bóklegur hluti

 1. Farið verður í lífeðlisfræði heilbrigðrar meðgöngu og þær breytingar sem verða á líkama konunnar á meðgöngu og eftir fæðingu.
 2. Í framhaldi af því verður farið í frávik og kvilla á meðgöngu og eftir fæðingu.  Þar verður farið í forvörn kvilla tengt stoðkerfi, meltingu, æðakerfi o.fl.   Einnig verður farið yfir alvarlegri kvilla og mikilvægi þess að vinna í samráði við aðrar heilbrigðisstéttir þegar um slíkt er að ræða.  
 3. Farið verður yfir mikilvæga punkta í sambandi við næringu á meðgöngu og eftir fæðingu og að hverju ber að huga þar. 
 4. Farið verður í ástandsmælingar fyrir barnshafandi konur og nýorðnar mæður.
 5. Farið verður sérstaklega yfir æfingar, tæki og annað sem sérstaklega ber að forðast á meðgöngu og rétt eftir fæðingu og einnig þær æfingar sem þarf að gera með varúð.
 6. Að lokum verður farið vel yfir boðorð Fullfrisk – sem allar konur sem hafa verið á námskeiðum hjá okkur þekkja.  
 7. Bóklegur hluti er kenndur dagana 26., 27. og 28. janúar og lýkur svo með ítarlegu prófi þann 20. febrúar.  Lágmarkseinkunn 7 til að ljúka þessum hluta.


Verklegur hluti

 1. Farið aftur yfir þær æfingar sem sérstaklega ber að forðast á meðgöngu og rétt eftir fæðingu og einnig þær æfingar sem þarf að gera með varúð.
 2. Kenndar verða nýjar æfingar fyrir sömu vöðvahópa, sem hlífa þeim svæðum sem í hættu eru s.s. grind og baki, svo konan geti haldið áfram að æfa þrátt fyrir kvilla.
 3. Farið sérstaklega í hina ýmsu hóptíma (pump, palla, taibo, dans, herþjálfun, spinning og annað), upphitun, æfingar og niðurlag og hvernig hægt er að gera þessa tíma þannig að barnshafandi konur og nýorðnar mæður geti tekið þátt.  
 4. Farið yfir þær breytingar sem eru nauðsynlegar til að einkaþjálfarar geti örugglega sinnt þessum konum í sal.  Bæði upphitunartæki, laus lóð og lyftingartæki og teygjur í lokin.
 5. Verklegur hluti er kenndur dagana 6. og 7. febrúar og lýkur á prófi sem er tvíþætt.  Annars vegar fær nemandinn barnshafandi konu til sín í sal og ráðleggur henni með þjálfun þar og hins vegar þarf að kenna 15 mínútna hópþjálfun fyrir barnshafandi konur eða nýorðnar mæður.
  Hópþjálfunarverkefni ræðst af bakgrunni hvers og eins. Hver nemandi fær svo skriflega umsögn og er lágmarkseinkun 7 til að ljúka þessum hluta.

Kennarar námskeiðs eru Guðrún Lovísa Ólafsdóttir og Dagmar Heiða Reynisdóttir en þær eru báðar hjúkrunarfræðingar, einkaþjálfarar og þolfimikennarar og unnu lokaverkefni sitt Líkamsrækt á meðgöngu við hjúkrunarfræðideild H.Í. árið 2004 undir leiðsögn Helgu Gottfreðsdóttur lektors í ljósmóðurfræðum.  Þær eiga og reka Fullfrisk ehf og hafa kennt meðgöngu og mömmuleikfimi samfellt í tæp þrjú ár við góðan orstír.

Áhugasamir fylla út umsóknareyðublað sem hægt er að finna á heimasíðu Fullfrísk.
Inntökuskilyrði er einhvers konar menntun og reynsla af íþróttakennslu s.s. íþróttafræði, einkaþjálfun, þolfimikennsla eða annað sambærilegt.  Lágmarksaldur er 22 ára.  Hámarksfjöldi á námskeiði er 15 manns og valið verður úr umsóknum.
Innifalið í námskeiði er mappa með öllu kennsluefni og lesefni.

Verð 50.000 kr.  

Fullfrísk leitar af kennurum til þess að kenna á námskeiðum Fullfrísk (bæði á höfuðborgarsvæðinu svo og á landsbyggðinni) og verðum við með augun opin á kennaranámskeiðinu.