; www.fullfrisk.com
Home Um Fullfrísk
Um Fullfrísk

 

Dagmar Heiða Reynisdóttir útskrifaðist úr hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 2004 og skrifaði þá BS-ritgerðina „Líkamsrækt á meðgöngu“.  Dagmar hefur kennt meðgöngu- og mömmuleikfimi í 7 ár og hefur á þeim tíma einnig tekið einkaþjálfarapróf og ýmis líkamsræktartengd námskeið.  Fullfrísk byrjaði eingöngu með meðgöngunámskeið en fljótlega kom í ljós að einnig var þörf fyrir mömmunámskeið.  Mikið er lagt upp úr því að hafa létt og skemmtilegt andrúmsloft og að gera skemmtilega hluti saman svo sem að fara út að borða, hafa saumaklúbbakvöld og fræðslukvöld.  Námskeiðin rúlla allt árið í kring en framboð tíma breytist aðeins á milli árstíma.  Fullfrísk hefur einnig tekið að sér að vera með sérsniðin námskeið fyrir lokaða hópa. 
 
Líkamsrækt er stór þáttur í lífi margra kvenna og hafa þær yfirleitt áhuga á að halda áfram að stunda hana á meðgöngu og eftir fæðingu barns.  Hjá Fullfrísk eru konur á öllum stigum meðgöngu og mömmur með misgömul börn en allar geta tekið jafn vel á því. 

 
Meðgöngutímar
Á meðgöngunámskeiðunum er mikil áhersla lögð á styrktaræfingar og þar af leiðandi getur hver og ein ráðið álaginu mikið til sjálf t.d. með þyngdum lóða, mismiklum endirtekningum eða mismunandi hraða á æfingum.  Mikil áhersla er lögð á að konur hlusti vel á líkamann og konum ráðlagt miðað við sitt ástand.  Í tímum hjá Fullfrísk hafa því verið konur í mjög góðu formi, allt frá 12. viku og upp í rúmlega 40. viku svo og konur sem hafa ekki æft neitt af ráði áður eða konur sem eru slæmar í baki og grind.  Hver og ein getur æft á sínum forsendum.  Tímarnir eru mjög fjölbreyttir og þannig reynt að ná til allra.
 
Mömmutímar

Konur sem hafa æft alla meðgönguna eru oft mjög spenntar að byrja aftur að hreyfa sig eftir fæðingu barns og er almenna ráðleggingin að konur byrji að hreyfa sig aftur 6 vikum eftir fæðingu barnsins með nokkrum undantekningum.  Mjög mikilvægt er að fara hægt af stað til þess að sjá hvernig líkaminn bregst við því að byrja að hreyfa sig aftur.  Mömmutímarnir eru fjölbreyttir eins og meðgöngutímarnir og þar eru konur allt frá því að vera með pínu lítil börn og upp í börn sem eru farin að sitja og skríða.  Í mömmutímunum er þó verið að gera meira að þolæfingum í bland við styrktaræfingar.  Það er nokkuð augljóst að konur sem eru nýbúnar að eiga og konur sem eru búnar að vera nokkur námskeið þurfa ólíkt álag og þess vegna eru oft gefnar mismunandi útgáfur af æfingum þannig að hver og ein geti æft undir því álagi sem hentar hverju sinni.  Eins hafa konur verið að æfa slæmar í grind og getað valið æfingar út frá því.  Á mömmu-námskeiðunum taka mömmurnar börnin með sér og geta sinnt þeim hvenær sem er.  Boðið er boðið upp á mælingar fyrir þær sem vilja, matardagbók og þrekpróf.  Ekkert af þessu er þó skylda fyrir þær sem vilja bara koma að hreyfa sig í góðum félagsskap.