; www.fullfrisk.com
Home Spurningar og svör Er óhætt að stunda lyftingar á meðgöngunni?
Er óhætt að stunda lyftingar á meðgöngunni?

Styrktarþjálfun ætti að vera hluti af líkamsrækt allra þungaðra kvenna. 

Jafnvel byrjandi getur hafið styrktarþjálfun á meðgöngu. 

Kostir styrktarþjálfunar eru margir.  Sterkur líkami aðstoðar konu við að bera þá umfram þyngd sem fylgir meðgöngu, eykur stöðugleika og jafnvægi, eykur úthald og orku og eykur sjálfstraust og vellíðan.  Eftir fæðingu mun sterkur líkami auðvelda konu við að sinna nýja fjölskyldumeðlimnum. 

Eins og með allt annað gildir að stunda lyftingar og styrktaræfingar í hófi.  Fyrir byrjendur er mælt með því að gera litlar hreyfingar með léttum lóðum.  Hægt er að auka þyngdir smátt og smátt.  Kona sem er vön að lyfta lóðum getur haldið því áfram en ekki er mælt með því að auka þyngdir á meðgöngu.  Æskilegra að nota léttari lóð eða eigin líkamsþyngd og gera fleiri endurtekningar. Mikilvægt er að hvíla vel á milli setta.

Flest lyftingartæki auðvelda konu að halda jafnvægi við æfingar og að hafa stjórn á hreyfingum.  Sum lyftingartæki eru þó ekki æskileg fyrir þungaðar konur.  Tæki sem eru með belti yfir kvið eða mjaðmir eða stuðningspúða fyrir framan kvið eru ekki ráðlögð á meðgöngu.  Forðast skal æfingar sem valda miklu álagi á kvið, mjaðmir og neðra bak eða tæki sem krefjast þess að kona liggi lengi á baki. 

Mikilvægt er að hafa kviðvöðva ávallt spennta við æfingar því það styrkir þá beint auk þess sem það minnkar álag á bakið.