Grindarverkir

Orsök

      Mjaðmargrindin er samsett úr þremur beinum. Miðjuhluti grindarinnar sem oft er kallaður lífbein, er tengdur saman af brjóskefni sem kallast klyftarsambryskja (pubic symphysis). Þegar fóstrið stækkar bregst grindin við með því að víkka klyftarsambryskjuna sem nemur 4-7 mm á síðasta þriðjungi meðgöngu. Þetta gerist vegna þess að hormónabúskapur breytist á meðgöngu og þjónar þeim tilgangi að búa til pláss fyrir fóstrið og auðvelda útgang þess við fæðingu. Þyngdaraukninging sem verður á meðgöngu og breyttur jafnvægispunktur geta aukið þar á. Þessi breyting á mjaðmargrind getur haft í för með sér verki sem í daglegu tali eru kallaðir lífbeinsverkir. 

      Einkenni mjaðmagrindarverkja geta einnig komið frá spjaldliðum og leitt út í mjaðmir, bjóbak, nára, innanverð svo og aftanverð læri. Á meðgöngu verða miklar hormónabreytingar í líkama kvenna sem valda því að liðbönd mýkjast og mjúkvefir verða teygjanlegri. Vöðvaspenna getur einnig myndast í vöðvum sem festast við mjaðmagrindina.

      Ákveðnir þættir geta gert ástandið verra s.s. stórar hreyfingar um mjaðmargrind, mikil hopp og þegar sest er beint upp úr liggjandi stöðu án þess að fara fyrst á hliðina. Það er því mikilvægt að passa vel upp á líkamsstöðuna og reyna að takmarka þessa þætti til að fyrirbyggja að verkir komi fram.

      Flestar konur losna alveg við grindarverkina skömmu eftir fæðingu en sumar konur halda áfram að finna fyrir þessum verkjum allt upp undir ár frá fæðingu barns og jafnvel lengur.

Fyrirbygging og Meðferð

      Mikilvægast er að hlusta á líkamann og fara varlega þegar verkir koma fram. Einnig er mikilvægt að halda öllu álagi á mjaðmargrind í lágmarki því einkenni versna við ýmsar daglegar athafnir og oft koma verkir ekki fyrr en eftir á. Nokkur atriði sem gott er að hafa í huga fyrir konur sem eru farnar að finna fyrir grindarverkjum:

  • Forðast að standa lengi, sérstaklega á öðrum fæti. Hvíla líkamann reglulega t.d. setjast niður eða leggjast í smá stund. 
  • Fá astoð við daglegar athafnir þegar hægt er s.s. heimilisverkin, barnauppeldið og innkaup heimilisins.
  • Minnka við sig vinnu ef hægt er.
  • Forðast stiga og að bera þyngdir. Aðrar hreyfingar sem ætti að sleppa eru hopp, fráfærsla á mjöðm og allar stórar hreyfingar.
  • Gott er að hafa kodda á milli fóta við svefn og hvíld.
  • Góðar styrktaræfingar fyrir líkamann svo og grinarbotns- og bakæfingar hafa hjálpað mörgum konum. Æfingar á hjóli eða í vatni eru einnig góðar þar sem þær minnka þyngdarálag á mjöðmina og það kemur síður högg á liðina.    

Ef ofangreindir þættir duga ekki til að draga úr eða koma í veg fyrir verki er mælt með því að konur leiti sér læknis og/eða sjúkraþjálfara.