Meðgöngunámskeið

Líkamsrækt er stór hluti af lífi margra kvenna. Með því að auka styrk og þol eru konur betur í stakk búnar til að takast á við álag hversdagsins, hvort sem það er að sinna vinnunni, heimilinu eða öðrum hlutum sem þær taka sér fyrir hendur.

Líkamsrækt er að auki bráðnauðsynleg geðheilsunni og minnkar kvíða og þunglyndi. Líkamsrækt hefur mjög jákvæð áhrif á líkamsímynd kvenna og svefninn verður betri auk þess sem líkamsrækt er streitulosandi. Líkamsrækt hefur einnig marga aðra kosti í för með sér s.s. aukið þol og styrk, minnkar þyngdaraukningu, lægri tíðni stoðkerfisverkja og dregur úr tíðni ýmissa meðgöngukvilla.       

Rannsóknir hafa sýnt að barnshafandi konur sem eru heilsuhraustar eiga að geta stundað líkamsrækt í a.m.k. 30 mínútur á dag, flesta ef ekki alla daga vikunnar, eins og ráðlagt er fyrir konur sem ekki eru barnshafandi. 

Markmið námskeiðs

Auk þess að stuðla að vellíðan er markmið námskeiðsins ekki síður forvörn gegn hinum ýmsu kvillum sem geta hrjáð konur á meðgöngu en einnig undirbúningur fyrir fæðingu barnsins. Líkamsræktin hjálpar konunni einnig að byggja sig upp aftur eftir fæðingu barns og koma sér í fyrra form, bæði andlega og líkamlega.  

Forvörn

Eins og flestir vita mun líkami verðandi móður ganga í gegnum miklar og dramantískar breytingar frá getnaði fram að fæðingu. Þetta veldur gríðarlegu álagi á líkamann. Brjóstin stækka, draga axlir og höfuð fram og stytta þannig brjóstvöðva og lengja bakvöðva. Kviður stækkar mikið og breytir þannig þyngdarpunkti líkamans. Konan bregst við með því að fetta bakið í stellingu sem hún er óvön.

Miklar breytingar verða á hormónabúskap líkamans sem hefur m.a. þau áhrif að liðir verða lausari. Á seinni hluta meðgöngu er legið orðið ansi stórt og farið að ýta á lungu, þvagblöðru og allt annað sem fyrir því er. Þetta gerir áður einfalda hluti eins og öndun og þvaglosun allt í einu ekki svo einfalda.

Eitt af markmiðum námskeiðsins er að reyna að kenna konunni að koma í veg fyrir mikið af þessum fylgikvillum meðgöngu, styrkja þá vöðva sem hættir til að veikjast á meðgöngu, teygja á öðrum sem hættir til að styttast og reyna þannig að stuðla að sem bestri líkamsstöðu.

Það er ekki bara líkaminn sem breytist. Hormónarnir hafa að auki áhrif á andlegu hliðina. Rannsóknir hafa sýnt að líkamsrækt á meðgöngu minnki kvíða og þunglyndi og með því að hreyfa sig reglulega stjórni konur betur þyngdaraukningu sinni sem m.a. eykur sjálfsálit og bætir líkamsímynd þeirra. 

Undirbúningur

Við getum líkt meðgöngu og fæðingu við maraþon hlaup. Meðgangan er líkamlega erfið og því nauðsynlegt að undirbúa sig vel fyrir það sem er framundan. Einnig getur fæðingin sjálf verið mjög líkamlega erfið. Þá er þörf á styrk, úthaldi og einbeitingu og gott að vera í góðri þjálfun.

Kviðvöðvar eru mikilvægir í fæðingu en þeir eru ekki einu vöðvarnir sem á reynir. Flestar konur fæða í hálfliggjandi stöðu og veldur það álagi á fótleggi, sérstaklega löngu vöðvana á innan- og utnaverðum lærum og því er mikilvægt að styrkja þá. Einnig skipta grindarbotnsvöðvar gríðarlega miklu máli og má alls ekki vanmeta þátt þeirra.

Síðast en ekki síst er nauðsynlegt að kunna að slaka á því að á ákveðnum tímapunkti í fæðingu getur það reynst nauðsynlegt. 

Enduruppbygging

Þótt fæðingin marki lokapunkt meðgöngu er hún bara byrjunin á öllu öðru. Enn á ný gengur líkaminn í gegnum miklar breytingar. Aftur verður breyting á þyngdarpunkti og ýmsir vöðvar eru ofteygðir s.s. kviðvöðvar o.fl.

Allt þetta á sér stað á sama tíma og nýr fjölskyldumeðlimur hefur bæst í hópinn sem þarf mikla umönnun s.s. að halda á, gefa brjóst auk annarra hluta. Þetta er mikið aðlögunartímabil og ekki alltaf auðvelt. Þetta aðlögunartímabil er þó hægt að auðvelda með því að þjálfa vel mikilvæga vöðva á meðgöngu og þannig minnka líkur á bakverkjum, axlarverkjum, þvagleka og öðrum óþægindum eftir fæðingu.

Þeim mun meiri rækt sem konan leggur við líkamann á meðgöngu þeim mun hraðar og betur jafnar hún sig eftir fæðingu og er fljótari að ná fyrra formi og starfsorku.

Uppbygging námskeiðs

Námskeiðið byggist fyrst og fremst á styrktarþjálfun og er mikil áhersla lögð á að styrkja kvið-, bak- og grindarbotnsvöðva. Æfingar eru fjölbreyttar og samanstanda m.a. af ýmiskonar styrktaræfingum, stöðvahring, boxi, tabata o.fl. og er mikil áhersla lögð á að tímarnir séu líflegir og skemmtilegir. Mikil áhersla er lögð á að konur hlusti vel á líkamann og konum ráðlagt miðað við sitt ástand.

Í Fullfrísk eru allar konur velkomnar, hvort sem þær eru vanar að æfa eða ekki svo og konur með stoðkerfisverki eða önnur vandamál. Konur hafa verið að byrja allt frá 12. viku (sumar fyrr) og frameftir meðgöngunni og margar hverjar ná að æfa fram á síðasta dag.     

      

Hvenær er kennt og Hvenær get ég byrjað?

Meðgöngutímarnir eru kenndir mánudaga og miðvikudaga kl 17:30 og hefjst ný námskeið á 6 vikna fresti. Hægt er að byrja hvenær sem er inni í miðju námskeiði og fá þá að greiða miðað við það eða eiga inn í næsta námskeið það sem vantar upp á. 

Mikill sveigjanleiki er á að fá að flakka á milli þeirra tíma sem eru í boði hverju sinni. Þá er ólettum konum boðið að mæta líka í mömmutímana á morgnana og fá þá æfingar aðlagaðar miðað við þeirra ástand. Að auki hittast hóparnir utan tíma og skapast gott og skemmtilegt andrúmsloft innan þeirra.

Ef kona þarf að hætta á miðju námskeiði vegna fæðingar barns, þreytu eða líkamlegra annmarka þá er konunni boðið að eiga restina upp í mömmunámskeið þegar hún er búin að eiga.

Næstu námskeið