Aðskilnaður kviðvöðva (Diastasis Recti)

Hvað er aðskilnaður kviðvöðva?

Á síðari stigum meðgöngu getur átt sér stað aðskilnaður á kviðvöðvum frá miðlínu, ýmist að hluta til eða algerlega. Stærsti kviðvöðvinn heitir kviðbeinn og festist hann í miðlínu við bandvef sem kallast hvítarák. Kviðvöðvinn er hannaður þannig að hann styttist og lengist lóðrétt. Á meðgöngu þarf kviðveggurinn hins vegar einnig að stækka lárrétt. Þar sem kviðbeinn og hvítarák eru ekki mjög teygjanleg á þverveginn, þynnist rákin og víkkar til þess að létta undir álagi sem verður af því að kviðurinn stækkar á meðgöngu.  Hormón sem myndast á meðgöngu valda því einnig að liðbönd verða laus. 

Aðrir þættir sem hafa áhrif á það hvort aðskilnaður verður á kviðvöðvum eru stærð fósturs og fjöldi, stærð fylgju, magn legvökva, hversu oft konan hefur gengið með barn, þyngdaraukning á meðgöngu, búklengd og hversu sterkir kviðvöðvarnir eru. Konur sem eru með sterka kviðvöða eru almennt betur í stakk búnar til þess að sporna við þessu ástandi vegna þess að kviðæfingar auka einnig styrk og teygjanleika rákarinnar.

Afleiðingar

Aðskilnaður á kviðvöðvum hefur engin skaðleg áhrif á barnið en oft má rekja bakverki á meðgöngu og eftir fæðingu barns til aðskilnaðs á kviðvöðvum. Vandamál í grindarbotni, léleg líkamsstaða, útþaninn kviður og innri vandamál má oft rekja einnig til aðskilnaðs á kviðvöðvum. 

Hvernig á að meta aðskilnað

Flestar konur fá einhvern aðskilnað á kviðvöðvum á meðgöngu og því er mjög gott að meta hversu mikill aðskilnaður hefur orðið á. Aðskilnaður er metinn með því að liggja á baki með bogin hné, spenna kviðinn og setja flatann lófa yfir nafla. Einnig er gott að prófa fyrir ofan og neðan nafla. Aðskilnaður er mældur í fingurbreiddum og telst ein til tvær fingurbreiddir vera eðlilegt en allt yfir það er þá fremur mikill aðskilnaður. 

Ráðleggingar

Almennt er ekki ráðlagt að gera kviðkreppur og snúningashreyfingar ef aðskilnaður kviðvöðva er stór. Gott er að fara rólega af stað eftir fæðingu barns. Talið er að ákveðnar æfingar geti verið góðar til þess að byrja með og jafnvel hjálpað vöðvunum að dragast saman svo gatið lokist fyrr s.s. æfingar þar sem áhersla er á að draga kviðvöðvana inn og niður í gólf.