Almennar ráðleggingar um líkamsrækt á meðgöngu

Þegar barnshafandi kona stundar líkamsrækt er að mörgu að huga. Eftirfarandi eru almennar ráðleggingar um líkamsrækt á meðgöngu. Þetta er auðvitað ekki tæmandi listi en kemur inn á mikilvægustu atriðin sem gott er að hafa í huga.

Hlusta á líkamann

Mikilvægast af öllu er að hlusta á líkamann. Ef mikil þreyta gerir vart við sig eina vikuna þarf að taka tillit til þess og minnka aðeins æfingar eða álag þá vikuna. Ekki er mælt með því að barnshafandi kona æfi þangað til hún verður örmagna. Hver og ein kona stjórnar álaginu mjög mikið sjálf og þannig er hægt að gera æfinguna bæði auðveldar og erfiðari t.d. með ákefð og hraða æfinga svo og þyngd lóða. 

Talprófið

Hjartsláttartíðni er ekki besti mælikvarði á álag hjá barnshafandi konum. Ástæða þess er sú að margir aðrir þættir geta haft áhrif á hjartsláttartíðni s.s. erfðir, aldur, líkamshreysti og vökvaástand. Besta mælitækið er talprófið og miðast það við að konan geti haldið uppi samræðum á meðan hún æfir. Ef hún er ekki fær um það, er álagið of mikið.

öndunin

Mikilvægt er að barnshafandi kona sé meðvituð um öndunina hvort sem er við æfingar eða þegar teygjur eru gerðar. Ekki er ráðlagt að halda inni í sér andanum við æfingar. Ef öndunin verður of orkukræf er ráðlagt að hægja á æfingum þangað til hún verður eðlileg á ný.

Kviðæfingar og æfingar liggjandi á baki

 Margar konur forðast að gera kviðæfingar á meðgöngu af ótta við að skaða fóstrið en raunin er sú að kviðæfingar sem slíkar hafa ekki áhrif á fóstrið. Hins vegar er ekki er mælt með því að gera æfingar liggjandi á baki eftir fyrsta þriðjung meðgöngu ef það veldur óþægindum s.s. svima og annarri vanlíðan. Þetta gerist vegna þess að legið sem þá er orðið stærra getur þrýst á stóra æð sem flytur blóð til baka til hjartans. Ef þessi einkenni koma fram er mælt með því að leggjast yfir á vinstri hlið meðan þau líða hjá. Ef kona finnur fyrir þessum óþægindum getur hún þó gert kviðæfingar liggjandi á hlið. Kona sem ekki finnur fyrir óþægindum þarf ekki að hafa áhyggjur og langflestar konur finna aldrei fyrir neinum einkennum við það að liggja á baki.

 Aðskilnaður á kviðvöðvum getur komið fram á meðgöngu og getur stórt gat verið frábending við því að gera kviðæfingar en hægt er að mæla gatið og meta þannig hvað er skynsamlegast að gera. Upplýsingar um aðskilnað á kviðvöðvum má sjá hér http://Aðskilaður á kviðvöðvum

Rétt líkamsstaða

 Mikilvægt er að halda réttri líkamsstöðu á meðgöngu. Líkamsstaða hefur áhrif á heilbrigði okkar s.s. jafnvægi, vellíðan og öndun. Þegar kviður barnshafandi konu stækkar þarf hún að aðlaga þyngdarpunkt sinn og krefst það einbeitingar og þjálfunar. Röng líkamsstaða getur leitt til stoðkerfisverkja s.s. í hálsi, öxlum, baki og grind.

 Langvinn kyrrstaða er ekki æskileg og er ráðlagt að hreyfa fætur eða ganga á milli æfinga til þess að örva blóðrás í fótum. Þegar staðið er upp úr liggjandi stöðu ætti alltaf að fara yfir á aðra hvora hliðina fyrst í stað þess að standa beint upp úr liggjandi stöðu. 

Næring

 Æskilegt er að borða eitthvað létt 30-60 mínútum fyrir æfingu til þess að koma í veg fyrir blóðsykursfall. Eftir æfingar er mælt með því að borða flókin kolvetni eða næringarríkan mat til þess að bæta upp tapaða orku og koma í veg fyrir mikla þreytu. Mikilvægt er að drekka nóg af vatni fyrir og eftir æfingar og meðan á æfingum stendur. 

Fatnaður

Mikilvægt er að vera í þægilegum fötum sem anda vel og góðum íþróttaskóm á meðan æft er. Einnig er nauðsynlegt að vera í brjósthaldara með góðum stuðningi eða jafnvel tveimur til að veita enn betri stuðning. Þetta getur komið í veg fyrir bakverki í tengslum við þyngdaraukningu brjósta.