Gyllinæð

Hvað er gyllinæð?

Gyllinæð er æðahnútar neðst í endaþarmi og finnast sem þykkildi. Æðahnútarnir myndast þegar bláæð tútnar út af því hún flytur blóðið ekki nógu greiðlega. Gyllinæð skiptist í ytri og innri gyllinæð, eftir því hvar hún myndast. Ytri gyllinæð myndast í neðsta hluta endaþarmsins nálægt endaþarmsopinu. Innri gyllinæð myndast ofar í endaþarminum, í þeim hluta sem er fóðraður slímhúð.

Einkenni

Blæðing er algengasta og oft eina einkennið. Blóðið er ljósrautt og kemur við hægðalosun. Kláði við endaþarmsop getur fylgt, sérstaklega ef um innri gyllinæð er að ræða. Fyrirferðaraukning getur verið sjáanleg, sérsaklega ef um ytri gyllinæð er að ræða og tilfinning um að endaþarmur sé fullur og þörf á losun. Verkir geta komið samfara hægðalosun en eru venjulega ekki miklir.

orsök

Helsta orsök gyllinæðar á meðgöngu eru hormónaáhrifin sem valda slökun á sléttum vöðvum og aukinn þrýstingur á grindarbotninn sem veldur svo þrýstingi á æðarnar við endaþarminn. Harðar hægðri er m.a. eitt af því sem getur valdið þessum þrýstingi og því mjög mikilvægt að halda hægðum mjúkum. Langtímastöður geta einnig valdið þrýstingi svo og þungar lyftingar. Einnig er mjög algengt að konur fái gyllinæði við að rembast í fæðingunni.

Meðferð

Fyrst og fremst er mikilvægt að fyrirbyggja hægðatregðu þar sem hún er oft einn helsti orsakaþátturinn á meðgöngu m.a. með trefjaríku fæði og nægri vatnsinntöku. Hægt er að leggja kaldan bakstur við endaþarminn og einnig gott að sitja ekki lengi í einu til þess að létta þunga og þrýstingi af gyllinæðinni.

Til eru ýmsar gerðir áburða sem notaðir eru og borið á gyllinæðina eða sprautað í endaþarminn og að auki eru til stílar. Kremin kæla og minnka óþægindi með því að draga úr kláða og bólgum og flýta þannig fyrir gróanda. Einnig auka þau blóðflæði á svæðið og flýta þannig fyrir viðgerð á vefjum. Þau smyrja einnig endaþarminn og auðvelda þannig hægðalosun.

Stundum þarf skurðaðgerð til að losna við gyllinæð. Aðeins er mælt með skurðaðgerð við gyllinæð þegar önnur meðferð s.s. trefjaríkt fæði, hægðalosandi lyf, hægðamýkjandi efni og stílar hafa verið fullreynd. Skurðaðgerð á gyllinæð getur verið varhugaverð því að hún getur leitt til þess að viðkomandi geti ekki stjórnað hægðalosun, valdið taugaskaða svo og verið sársaukafull.