Æðahnútar

Æðahnútar eru áberandi og óeðlilega útvíkkaðar bláæðar sem oftast myndast í neðri útlimum. Æðahnútar geta einnig myndast við sköp kvenna. Gyllinæð eru æðahnútar við endaþarm.

Orsök

Helsta orsök æðahnúta er talin vera bilun í lokukerfi bláæðanna auk þess sem slaknar á sléttum vöðvum í æðaveggjunum. Þungunarhormónið Progesteron veldur því að það slaknar á æðaveggjum og blóðstreymi eykst. Æðarnar geta þá stíflast og æðahnútar myndast. Æðahnútar eru algengur fylgivkilli meðgöngu. Oftast finnast þeir á leggjum og í hnésbótum en einnig geta þeir komið fram við endaþarm og í nára. Oft stækka æðahnútarnir þegar líður á meðgönguna og einnig getur þeim fjölgað með hverri meðgöngunni. 

Einkenni

Æðahnútar geta verið án einkenna en algengustu einkennin eru pirringur, bjúgur, þyngsla- og þrýstingstillfinning, breytingar á húð eða langvarandi þreyta í fótum.

Meðferð

Hefðbundin meðferð er regluleg hreyfing, hækka undir fótleggjum og forðast langar kyrrsetur eða kyrrstöður. Teygjusokkar eða eitthvert annað form af ytri stuðningi er einnig gott. Mikilvægt er að klæða sig í þá ÁÐUR en farið er fram úr rúmi að morgni.