Bjúgur á meðgöngu

skilgreining

Bjúgur er vökvi sem sest á milli fruma í líkamanum í stað þess að haldast inni í æðakerfinu. Ýmsir þættir orsaka bjúg, s.s. aukinn þrýstingur í æðum og aukið gegndræpi í æðaveggjum. Eins getur mikil saltnotkun, ónóg vökvainntaka, ónóg próteininntaka og ónóg hvíld valdið bjúg.

Flestar konur fá einhvern bjúg þegar líður undir lok meðgöngu. Þótt talið sé að bjúgur sé eðlilegur fylgifiskur meðgöngu getur mikill bjúgur verið einkenni um sjúklegt ástand s.s. meðgöngueitrun og nýrnabilun. Því er mikilvægt að fylgjast vel með bjúgmyndun á meðgöngu og reyna að halda henni niðri. Það er mikilvægt að fylgjast vel með þyngdaraukningu, blóðþrýstingi og próteini í þvagi eins og gert er í mæðravernd og þekkja einkenni meðgöngueitrunar sem getur komið hægt og hljótt. Helstu einkennin eru höfuðverkur, ógleði, verkur hægra megin undir þind þ.e. við lifrastað og sjóntruflanir.

 

Einkenni

Bjúgur er ýmst staðbundinn t.d. þrútnir fætur eða fingur eða dreifður um allan líkamann. Bjúgurinn getur verið það mikill að fætur komast ekki í skó og einnig getur fylgt þessu þreyta og pirringur. Teygja á sokkum þrýstist gjarnan inn í húðina á fótleggjum og farið helst eftir að búið er að klæða sig úr sokkum. Einnig er hægt að meta bjúg með því að þrýsta fingri á húðina. Ef hún verður hvít við það og það tekur smá stund fyrir holuna að hverfa aftur er það einkenni um bjúg. 

Algengast er að bjúgurinn setjist á líkamann yfir daginn og minnki svo á nóttunni þegar konan hvílist. Ef kona situr mikið kyrr í langan tíma sígur bjúgurinn niður í fæturnar. 

meðferð

  • Vatn og vatnslosandi ávextir: Til að minnka bjúg er gott að drekka mikið af hreinu vatni.  Ávextir s.s. greip og melónur eru vatnslosandi og því getur hjálpað að borða þessa ávexti eða drekka safann úr þeim. 
  • Próteinrík fæða og minnka saltnotkun: Mataræðið skiptir gríðarlega miklu máli. Mikilvægt er að borða próteinríkan mat og gæta hófs í saltnoktun svo og að borða mikið af unnum og reyktum kjötvörum s.s. mikið saltað popp, snakk, hangikjöt, pepperoni og fleira.
  • Hreyfing: Öll hreyfing og líkamsrækt getur hjálpað til við að minnka bjúg með því að koma hreyfingu á blóð og koma þannig í veg fyrir að það safnist saman í neðri hluta líkamans. Einnig geta sundferðir minnkað bjúg og þá sérstaklega ef synt er eða æfingar gerðar í vatni því þrýstingurinn frá vatninu hjálpar til við bjúglosun. Slaka á í laug eða baði getur einnig hjálpað og sumir tala um að Ebson salt sé mjög gott í baðið. Ef þú vinnur þar sem þú þarft að sitja mikið þá er afar mikilvægt að standa upp reglulega og hreyfa sig til að koma blóðflæðinu á hreyfingu.
  • Hálega fyrir fætur: Til að minnka bjúg á fótum er gott að setja fætur upp á stól þegar setið er og hafa hærra undir fótum þegar legið er. Einnig er gott að snúa fótum um ökkla og pumpa fram og til baka til að koma blóðinu á hreyfingu.
  • Stuðningssokkar: Stuðningssokkar geta hjálpað mikið til við að minnka bjúg og þreytu í fótum. Þá er best að klæða sig í sokkana áður en farið er fram úr rúmi á morgnana en alls ekki sofa í sokkunum. Mikilvægt er að passa upp á að fá rétta stærð og láta mæla fyrir réttri stærð.
  • Vatnslosandi te: Ýmis vökvalosandi te geta hjálpað en ávalt er gott að útiloka að slík te sé í lagi að drekka á meðgöngu og fá ráðleggingar. Dæmi um slík te eru birkite (eða birkisafi) og brenninetlute. Eplaedik hefur einnig reynst vel.
  • Minnka álag:Stress og álag getur einnig valdið bjúg og því er mjög mikilvægt að hvílast vel.